Lúkasarguðspjall 22

<< Lúkasarguðspjall 22 >>
Luke 22 Icelandic
 

1 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar. 2 Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn.

3 Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. 4 Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. 5 Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. 6 Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri.

7 Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu, 8 sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: ,,Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss.`` 9 Þeir sögðu við hann: ,,Hvar vilt þú, að við búum hana?`` 10 En hann sagði við þá: ,,Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer, 11 og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?` 12 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað.`` 13 Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.

14 Og er stundin var komin, gekk hann til borðs og postularnir með honum. 15 Og hann sagði við þá: ,,Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð. 16 Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar, fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.`` 17 Þá tók hann kaleik, gjörði þakkir og sagði: ,,Takið þetta og skiptið með yður. 18 Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur.`` 19 Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: ,,Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.`` 20 Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ,,Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt. 21 En sjá, hönd þess, er mig svíkur, er á borðinu hjá mér. 22 Mannssonurinn fer að sönnu þá leið, sem ákveðin er, en vei þeim manni, sem því veldur, að hann verður framseldur.`` 23 Og þeir tóku að spyrjast á um það, hver þeirra mundi verða til þess að gjöra þetta.

24 Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. 25 En Jesús sagði við þá: ,,Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. 26 En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. 27 Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.

28 En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. 29 Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, 30 að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.

31 Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. 32 En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.`` 33 En Símon sagði við hann: ,,Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.`` 34 Jesús mælti: ,,Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag, munt þú þrisvar hafa neitað því, að þú þekkir mig.``

35 Og hann sagði við þá: ,,Þegar ég sendi yður út án pyngju og mals og skólausa, brast yður þá nokkuð?`` Þeir svöruðu: ,,Nei, ekkert.`` 36 Þá sagði hann við þá: ,,En nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér og eins sá, er mal hefur, og hinn, sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð. 37 Því ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ,með illvirkjum var hann talinn.` Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað.`` 38 En þeir sögðu: ,,Herra, hér eru tvö sverð.`` Og hann sagði við þá: ,,Það er nóg.``

39 Síðan fór hann út og gekk, eins og hann var vanur, til Olíufjallsins. Og lærisveinarnir fylgdu honum. 40 Þegar hann kom á staðinn, sagði hann við þá: ,,Biðjið, að þér fallið ekki í freistni.`` 41 Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar, féll á kné, baðst fyrir og sagði: 42 ,,Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.`` [ 43 Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann. 44 Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.] 45 Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð. 46 Og hann sagði við þá: ,,Hví sofið þér? Rísið upp og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.``

47 Meðan hann var enn að tala, kom flokkur manna, og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann. 48 Jesús sagði við hann: ,,Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?`` 49 Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: ,,Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?`` 50 Og einn þeirra hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. 51 Þá sagði Jesús: ,,Hér skal staðar nema.`` Og hann snart eyrað og læknaði hann. 52 Þá sagði Jesús við æðstu prestana, varðforingja helgidómsins og öldungana, sem komnir voru á móti honum: ,,Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja? 53 Daglega var ég með yður í helgidóminum, og þér lögðuð ekki hendur á mig. En þetta er yðar tími og máttur myrkranna.``

54 En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar. 55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra. 56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: ,,Þessi maður var líka með honum.`` 57 Því neitaði hann og sagði: ,,Kona, ég þekki hann ekki.`` 58 Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: ,,Þú ert líka einn af þeim.`` En Pétur svaraði: ,,Nei, maður minn, það er ég ekki.`` 59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: ,,Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður.`` 60 Pétur mælti: ,,Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður.`` Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani. 61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: ,,Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér.`` 62 Og hann gekk út og grét beisklega.

63 En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu, 64 huldu andlit hans og sögðu: ,,Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?`` 65 Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.

66 Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn. 67 Þeir sögðu: ,,Ef þú ert Kristur, þá seg oss það.`` En hann sagði við þá: ,,Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa, 68 og ef ég spyr yður, svarið þér ekki. 69 En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar.`` 70 Þá spurðu þeir allir: ,,Ert þú þá sonur Guðs?`` Og hann sagði við þá: ,,Þér segið, að ég sé sá.`` 71 En þeir sögðu: ,,Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans.``