Markúsarguðspjall 12

<< Markúsarguðspjall 12 >>
Mark 12 Icelandic
 

1 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: ,,Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. 2 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins. 3 En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan. 4 Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu. 5 Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu. 6 Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.` 7 En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.` 8 Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn. 9 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.

10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.

11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.``

12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum. 14 Þeir koma og segja við hann: ,,Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?`` 15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: ,,Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá.`` 16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: ,,Hvers mynd og yfirskrift er þetta?`` Þeir svöruðu: ,,Keisarans.`` 17 En Jesús sagði við þá: ,,Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.`` Og þá furðaði stórlega á honum.

18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 19 ,,Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.` 20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus. 21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji, 22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan. 23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana.`` 24 Jesús svaraði þeim: ,,Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs? 25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum. 26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` 27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega.``

28 Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: ,,Hvert er æðst allra boðorða?`` 29 Jesús svaraði: ,,Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. 30 Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.` 31 Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` Ekkert boðorð annað er þessum meira.`` 32 Fræðimaðurinn sagði þá við hann: ,,Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. 33 Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.`` 34 Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: ,,Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.`` Og enginn þorði framar að spyrja hann.

35 Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: ,,Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?

36 Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

37 Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?`` Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann.

38 Í kenningu sinni sagði hann: ,,Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, 39 vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. 40 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.``

41 Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. 42 Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. 43 Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: ,,Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. 44 Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.``