Postulasagan 4

<< Postulasagan 4 >>
Acts 4 Icelandic
 

1 Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir. 2 Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú. 3 Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið. 4 En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.

5 Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem. 6 Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum. 7 Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: ,,Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?`` 8 Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: ,,Þér höfðingjar lýðsins og öldungar, 9 með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn, 10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar. 11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn. 12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.``

13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú. 14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla. 15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu: 16 ,,Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því. 17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann.`` 18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni. 19 Pétur og Jóhannes svöruðu: ,,Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum. 20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.`` 21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð. 22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.

23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað. 24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: ,,Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,

25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?

26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.

27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels 28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi. 29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt. 30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú.`` 31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.

32 En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. 33 Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum. 34 Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið 35 og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.

36 Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur, 37 átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.