Matteusarguðspjall 22

<< Matteusarguðspjall 22 >>
Matthew 22 Icelandic
 

1 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti: 2 ,,Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. 3 Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma. 4 Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.` 5 En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, 6 en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. 7 Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. 8 Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. 9 Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.` 10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.

11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. 12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað. 13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.` 14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.``

15 Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín, hvernig þeir gætu flækt hann í orðum. 16 Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum, og þeir segja: ,,Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun. 17 Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?`` 18 Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: ,,Hví freistið þér mín, hræsnarar? 19 Sýnið mér peninginn, sem goldinn er í skatt.`` Þeir fengu honum denar. 20 Hann spyr: ,,Hvers mynd og yfirskrift er þetta?`` 21 Þeir svara: ,,Keisarans.`` Hann segir: ,,Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.`` 22 Þegar þeir heyrðu þetta, undruðust þeir, og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

23 Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 24 ,,Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.` 25 Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. 26 Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. 27 Síðast allra dó konan. 28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.``

29 En Jesús svaraði þeim: ,,Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. 30 Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni. 31 En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður: 32 ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda.`` 33 En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.

34 Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman. 35 Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: 36 ,,Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?`` 37 Hann svaraði honum: ,,,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.` 38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. 39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` 40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.``

41 Meðan farísearnir voru saman komnir, spurði Jesús þá: 42 ,,Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?`` Þeir svara: ,,Davíðs.`` 43 Hann segir: ,,Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir:

44 Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

45 Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?`` 46 Enginn gat svarað honum einu orði, og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.