Dómarabókin 20

<< Dómarabókin 20 >>
Judges 20 Icelandic
 

1 Þá lögðu allir Ísraelsmenn af stað, og safnaðist lýðurinn saman sem einn maður frá Dan til Beerseba, svo og Gíleaðland, fram fyrir Drottin í Mispa. 2 Og höfðingjar alls lýðsins, allar ættkvíslir Ísraels, gengu fram í söfnuði Guðs fólks _ fjögur hundruð þúsund fótgangandi menn, vopnum búnir. 3 Benjamíns synir fréttu, að Ísraelsmenn væru farnir upp til Mispa. Ísraelsmenn sögðu: ,,Segið frá, hvernig atvikaðist óhæfuverk þetta.`` 4 Þá svaraði levítinn, maður konunnar, er myrt hafði verið, og sagði: ,,Ég kom til Gíbeu, sem heyrir Benjamín, ásamt hjákonu minni og ætlaði að vera þar nætursakir. 5 Þá risu Gíbeubúar upp á móti mér og umkringdu húsið um nóttina og létu ófriðlega. Mig hugðust þeir að drepa og hjákonu minni nauðguðu þeir svo, að hún beið bana af. 6 Þá tók ég hjákonu mína og hlutaði hana sundur og sendi hana út um allt arfleifðarland Ísraels, því að þeir höfðu framið níðingsverk og óhæfu í Ísrael. 7 Þér eruð hér allir, Ísraelsmenn! Kveðið nú upp tillögur yðar og ráð!``

8 Þá reis upp allur lýður, sem einn maður væri, og sagði: ,,Enginn af oss skal fara heim til sín og enginn snúa heim til húss síns. 9 Og nú skulum vér fara þannig að við Gíbeu: Vér skulum ráðast gegn henni eftir hlutkesti. 10 Vér skulum taka tíu menn af hundraði af öllum ættkvíslum Ísraels og hundrað af þúsundi og þúsund af tíu þúsundum til þess að sækja vistir handa liðinu. Þegar þeir koma aftur, verður farið með Gíbeu í Benjamín með öllu svo sem maklegt er fyrir óhæfuverk það, er þeir hafa framið í Ísrael.`` 11 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn saman í móti borginni, allir samhuga sem einn maður væri.

12 Ættkvíslir Ísraels sendu menn um alla ættkvísl Benjamíns og létu þá segja: ,,Hvílík óhæfa er þetta, sem framin hefir verið yðar á meðal. 13 Framseljið því hrakmennin í Gíbeu, svo að vér fáum drepið þá og upprætt hið illa úr Ísrael.`` En Benjamíns synir vildu ekki gefa gaum orðum bræðra sinna, Ísraelsmanna. 14 Söfnuðust Benjamíns synir þá saman úr borgunum til Gíbeu til þess að fara í hernað móti Ísraelsmönnum. 15 En Benjamíns synir, þeir er úr borgunum komu, voru á þeim degi tuttugu og sex þúsundir vopnaðra manna að tölu, auk Gíbeu-búa, en þeir voru sjö hundruð að tölu, einvala lið. 16 Af öllu þessu liði voru sjö hundruð úrvals menn örvhentir. Hæfðu þeir allir hárrétt með slöngusteini og misstu ekki.

17 En Ísraelsmenn voru að tölu, fyrir utan Benjamín, fjögur hundruð þúsund vopnaðra manna, og voru þeir allir hermenn.

18 Ísraelsmenn tóku sig upp og fóru upp til Betel og gengu til frétta við Guð og sögðu: ,,Hver af oss skal fyrstur fara í hernaðinn móti Benjamíns sonum?`` Drottinn svaraði: ,,Júda skal fyrstur fara``.

19 Ísraelsmenn tóku sig upp um morguninn og settu herbúðir sínar hjá Gíbeu. 20 Og Ísraelsmenn fóru til bardaga í móti Benjamín, og Ísraelsmenn fylktu sér til orustu gegn þeim nálægt Gíbeu. 21 Þá fóru Benjamíns synir út úr Gíbeu og lögðu að velli tuttugu og tvær þúsundir manna af Ísrael á þeim degi. 22 En lið Ísraelsmanna herti upp hugann, og fylktu þeir sér af nýju til orustu á þeim stað, sem þeir höfðu fylkt sér hinn fyrri daginn. 23 Og Ísraelsmenn fóru upp eftir og grétu frammi fyrir Drottni allt til kvelds, og þeir gengu til frétta við Drottin og sögðu: ,,Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors?`` Drottinn svaraði: ,,Farið á móti þeim.``

24 Fóru Ísraelsmenn nú í móti Benjamíns sonum á öðrum degi. 25 Og Benjamín fór út í móti þeim úr Gíbeu á öðrum degi, og lögðu þeir enn að velli átján þúsund manns af Ísraelsmönnum, og voru þeir allir vopnum búnir. 26 Þá fóru allir Ísraelsmenn og allur lýðurinn upp eftir og komu til Betel og höfðust þar við grátandi fyrir augliti Drottins og föstuðu þann dag til kvelds. Og þeir fórnuðu brennifórnum og heillafórnum fyrir augliti Drottins. 27 Síðan gengu Ísraelsmenn til frétta við Drottin, en þar var sáttmálsörk Guðs í þá daga, 28 og Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar, gegndi þjónustu fyrir augliti hans í þá daga. Þeir sögðu: ,,Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors, eða eigum vér að hætta?`` Drottinn svaraði: ,,Farið, því að á morgun mun ég gefa þá í yðar hendur.``

29 Nú setti Ísrael menn í launsát hringinn í kringum Gíbeu. 30 Og Ísraelsmenn fóru í móti Benjamíns sonum á þriðja degi og fylktu þeir sér gegnt Gíbeu, eins og hin fyrri skiptin. 31 Þá fóru Benjamíns synir út á móti liðinu og létu teygjast burt frá borginni og tóku að fella nokkra af liðinu, eins og hin fyrri skiptin, úti á þjóðvegunum (annar þeirra liggur upp til Betel, en hinn til Gíbeu yfir haglendið), um þrjátíu manns af Ísrael. 32 Þá hugsuðu Benjamíns synir: ,,Þeir bíða ósigur fyrir oss eins og í fyrsta sinnið.`` En Ísraelsmenn höfðu sagt: ,,Vér skulum flýja, svo að vér fáum teygt þá frá borginni út á þjóðvegina.`` 33 Og allir Ísraelsmenn tóku sig upp úr sínum stað og fylktu sér í Baal Tamar, og þeir Ísraelsmanna, er í launsát voru, þustu fram úr sínum stað fyrir vestan Geba. 34 Því næst sóttu tíu þúsundir einvala liðs úr öllum Ísrael fram móti Gíbeu og tókst þar hörð orusta, en hinir vissu ekki að ógæfan vofði yfir þeim. 35 Þannig lét Drottinn Benjamín bíða ósigur fyrir Ísrael, og Ísraelsmenn drápu tuttugu og fimm þúsund og eitt hundrað manns af Benjamín á þeim degi, og voru þeir allir vopnum búnir.

36 Þá sáu Benjamíns synir, að þeir höfðu beðið ósigur. Ísraelsmenn gáfu Benjamín rúm, því að þeir treystu launsátinni, er þeir höfðu sett hjá Gíbeu. 37 En þeir, sem í launsátinni voru, spruttu upp og geystust fram mót Gíbeu og fóru til og felldu alla borgarbúa með sverðseggjum. 38 Það var samkomulag milli Ísraelsmanna og þeirra, er í launsátinni voru, að þeir skyldu láta reyk leggja upp af borginni til merkis. 39 Þegar nú Ísraelsmenn snerust á flótta í bardaganum og Benjamínítar tóku að fella nokkra af Ísraelsmönnum, um þrjátíu manns, með því að þeir hugsuðu: ,,Þeir hafa þegar beðið ósigur fyrir oss, eins og í fyrstu orustunni!`` 40 þá tók merkið að stíga upp af borginni, reykjarmökkurinn, og er Benjamínítar sneru sér við, sjá, þá stóð öll borgin í björtu báli. 41 Þá sneru Ísraelsmenn við, og sló felmti á Benjamíníta, því að þeir sáu, að ógæfan var yfir þá komin. 42 Sneru þeir nú undan Ísraelsmönnum á leið til eyðimerkurinnar, og hélst þó orustan á hælum þeim, og þeir, sem komu úr borgunum, drápu þá mitt á meðal þeirra. 43 Þeir umkringdu Benjamíníta, eltu þá og tróðu þá undir fótum sér, þar sem þeir höfðu leitað sér hvíldar, alla leið austur fyrir Gíbeu. 44 Og þar féllu af Benjamín átján þúsundir manna, og voru það allt hraustir menn. 45 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, og í eftirleitinni um þjóðvegina drápu þeir fimm þúsund manns, og þeir eltu þá allt til Gídeóm og drápu enn af þeim tvö þúsund manns. 46 Þannig féllu alls af Benjamín á þeim degi tuttugu og fimm þúsundir vopnbúinna manna, og voru það allt hraustir menn. 47 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, sex hundruð manns, og höfðust við hjá Rimmónkletti í fjóra mánuði. 48 En Ísraelsmenn sneru aftur til Benjamíns sona og felldu þá með sverðseggjum, bæði menn og fénað og allt, sem þeir fundu. Þeir lögðu og eld í allar borgirnar, sem fyrir þeim urðu.