Bréfið til Hebrea 10

<< Bréfið til Hebrea 10 >>
Hebrews 10 Icelandic
 

1 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð. 2 Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir. 3 En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. 4 Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.

5 Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.

6 Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.

7 Þá sagði ég: ,,Sjá, ég er kominn _ í bókinni er það ritað um mig _ ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!``

8 Fyrst segir hann: ,,Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim.`` En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu. 9 Síðan segir hann: ,,Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn.`` Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara. 10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.

11 Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir. 12 En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs 13 og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans. 14 Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða. 15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann:

16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau.

17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.

18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

19 Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga, 20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn. 21 Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. 22 Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni. 23 Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið. 24 Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. 25 Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.

26 Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, 27 heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs. 28 Sá, er að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera. 29 Hve miklu þyngri hegning ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar anda náðarinnar? 30 Vér þekkjum þann, er sagt hefur: ,,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda.`` Og á öðrum stað: ,,Drottinn mun dæma lýð sinn.`` 31 Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs.

32 Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga. 33 Það var ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er áttu slíku að sæta. 34 Þér þjáðust með bandingjum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega. 35 Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun. 36 Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.

37 Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.

38 Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.

39 En vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.