<< Önnur bók Móse 9 >> Exodus 9 Icelandic | |
1 Því næst sagði Drottinn við Móse: ,,Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.
2 En synjir þú þeim fararleyfis, og haldir þú þeim enn lengur,
3 sjá, þá skal hönd Drottins koma yfir kvikfénað þinn, sem er í haganum, yfir hesta og asna og úlfalda, nautpening og sauðfé, með harla þungum faraldri.
4 Og Drottinn mun gjöra þann mun á kvikfénaði Ísraelsmanna og kvikfénaði Egypta, að engin skepna skal deyja af öllu því, sem Ísraelsmenn eiga.```
5 Og Drottinn tók til ákveðinn tíma og sagði: ,,Á morgun mun Drottinn láta þetta fram fara í landinu.``
6 Og Drottinn lét þetta fram fara að næsta morgni. Dó þá allur kvikfénaður Egypta, en engin skepna dó af fénaði Ísraelsmanna.
7 Þá sendi Faraó menn, og sjá: Engin skepna hafði farist af fénaði Ísraelsmanna. En hjarta Faraós var ósveigjanlegt, og hann gaf fólkinu eigi fararleyfi.
8 Því næst sagði Drottinn við Móse og Aron: ,,Takið handfylli ykkar af ösku úr ofninum, og skal Móse dreifa henni í loft upp að Faraó ásjáandi.
9 Skal hún þá verða að dufti um allt Egyptaland, en af því skal koma bólga, sem brýst út í kýli, bæði á mönnum og fénaði um allt Egyptaland.``
10 Þeir tóku þá ösku úr ofninum og gengu fyrir Faraó. Dreifði þá Móse öskunni í loft upp, og kom þá á menn og fénað bólga, sem braust út í kýli.
11 En spásagnamennirnir gátu ekki komið á fund Móse sökum bólgunnar, því að bólga kom á spásagnamennina, eins og á alla Egypta.
12 En Drottinn herti hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt Móse.
13 Þá mælti Drottinn við Móse: ,,Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.
14 Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni.
15 Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni.
16 En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.
17 Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi.
18 Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags.
19 Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja.```
20 Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað.
21 En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti.
22 Þá sagði Drottinn við Móse: ,,Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi.``
23 Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland.
24 Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist.
25 Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar.
26 Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl.
27 Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: ,,Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa.
28 Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur.``
29 Móse svaraði honum: ,,Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni.
30 Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð.``
31 Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn.
32 En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp.
33 Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina.
34 En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans.
35 Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.