<< Jósúabók 6 >> Joshua 6 Icelandic | |
1 Hliðum Jeríkó hafði verið lokað, og var borgin harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn.
2 Þá sagði Drottinn við Jósúa: ,,Sjá, nú gef ég Jeríkó í þínar hendur, konung hennar og kappa.
3 Og þér skuluð, allir vígir menn, ganga kringum borgina, hringinn í kringum borgina einu sinni. Svo skalt þú gjöra í sex daga.
4 Og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örkinni, og sjöunda daginn skuluð þér ganga sjö sinnum kringum borgina, og prestarnir þeyta lúðrana.
5 En þegar hrútshornið kveður við, þá skal allur lýðurinn æpa heróp mikið, jafnskjótt og þér heyrið lúðurhljóminn. Mun þá borgarmúrinn hrynja til grunna og lýðurinn mega upp ganga, hver þar sem hann er staddur.``
6 Þá lét Jósúa Núnsson kalla prestana og sagði við þá: ,,Þér skuluð bera sáttmálsörkina, og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örk Drottins.``
7 Og við lýðinn sagði hann: ,,Farið og gangið kringum borgina, en þeir sem hertygjaðir eru, skulu fara fyrir örk Drottins.``
8 Er Jósúa hafði talað til lýðsins, gengu sjö prestarnir, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum, fram fyrir augliti Drottins og þeyttu lúðrana, en sáttmálsörk Drottins fór á eftir þeim.
9 Þeir sem hertygjaðir voru, gengu á undan prestunum, þeim sem lúðrana þeyttu, en múgurinn fylgdi eftir örkinni, og var í sífellu blásið í lúðrana.
10 Og Jósúa bauð lýðnum á þessa leið: ,,Þér skuluð ekki æpa heróp og enga háreysti gjöra og ekkert orð mæla, fyrr en ég segi við yður: ,Æpið nú heróp!` Þá skuluð þér æpa heróp.``
11 Og hann lét fara með örk Drottins hringinn í kringum borgina einu sinni. Síðan gengu menn til herbúðanna og voru um nóttina í herbúðunum.
12 Jósúa reis árla um morguninn. Tóku nú prestarnir örk Drottins,
13 og prestarnir sjö, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana í sífellu, og þeir, sem hertygjaðir voru, gengu á undan þeim, en múgurinn fylgdi eftir örk Drottins, og var í sífellu blásið í lúðrana.
14 Þeir gengu og einu sinni kringum borgina annan daginn, fóru síðan aftur til herbúðanna. Svo gjörðu þeir í sex daga.
15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina.
16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: ,,Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina.
17 En borgin skal með banni helguð Drottni og allt sem í henni er. Portkonan Rahab ein skal lífi halda, svo og allir þeir, sem með henni eru í húsinu, því að hún leyndi sendimönnunum, er vér sendum.
18 Gætið yðar aðeins fyrir hinu bannfærða, að þér eigi girnist neitt af því og takið það, og leiðið með því bannfæring yfir herbúðir Ísraels og stofnið þeim í ógæfu.
19 Allt silfur og gull, og allir hlutir, sem af eiri eða járni eru gjörðir, skulu vera Drottni helgaðir og koma í féhirslu Drottins.``
20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina.
21 Og þeir bannfærðu allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna, með sverðseggjum.
22 En við mennina tvo, er kannað höfðu landið, sagði Jósúa: ,,Farið í hús portkonunnar og leiðið burt þaðan konuna og alla, sem henni heyra, eins og þið sóruð henni.``
23 Fóru þá sveinarnir, þeir er njósnað höfðu, og leiddu Rahab burt, föður hennar og móður, bræður hennar og alla, sem henni heyrðu. Þeir leiddu og burt alla ættmenn hennar og settu þá fyrir utan herbúðir Ísraels.
24 En borgina brenndu þeir í eldi og allt, sem í henni var. Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins.
25 En portkonunni Rahab og ættliði föður hennar gaf Jósúa líf, svo og öllum þeim, er henni heyrðu, og bjó hún og niðjar hennar meðal Ísraels upp frá því fram á þennan dag, fyrir því að hún leyndi sendimönnunum, er Jósúa hafði sent til þess að kanna Jeríkó.
26 Í það mund lýsti Jósúa þessari bannfæringu: ,,Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni, sem fer til og reisir að nýju þessa borg, Jeríkó! Frumgetning sinn skal hann missa, þegar hann leggur undirstöður hennar, og yngsta son sinn, er hann reisir hlið hennar.``
27 En Drottinn var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.