Jósúabók 1

<< Jósúabók 1 >>
Joshua 1 Icelandic
 

1 Eftir andlát Móse, þjóns Drottins, mælti Drottinn við Jósúa Núnsson, þjónustumann Móse, á þessa leið: 2 ,,Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum. 3 Hvern þann stað, er þér stígið fæti á, mun ég gefa yður, eins og ég sagði Móse. 4 Frá eyðimörkinni og Líbanon allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins, allt land Hetíta, allt til hafsins mikla mót sólar setri skal land yðar ná. 5 Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. 6 Ver þú hughraustur og öruggur, því að þú skalt skipta meðal þessa lýðs landi því, er ég sór feðrum þeirra að gefa þeim. 7 Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur. 8 Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega. 9 Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.``

10 Þá bauð Jósúa tilsjónarmönnum lýðsins á þessa leið: 11 ,,Farið um allar herbúðirnar og bjóðið lýðnum og segið: ,Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem Drottinn, Guð yðar, gefur yður til eignar.```

12 En við Rúbeníta, Gaðíta og hálfa ættkvísl Manasse mælti Jósúa á þessa leið: 13 ,,Minnist þess, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður, er hann sagði: ,Drottinn, Guð yðar, mun veita yður hvíld og gefa yður þetta land.` 14 Konur yðar, börn yðar og búsmali skal eftir verða í landi því, er Móse gaf yður hinumegin Jórdanar, en þér skuluð fara hertygjaðir fyrir bræðrum yðar, allir þér sem vopnfærir eruð, og veita þeim fulltingi, 15 þar til er Drottinn veitir bræðrum yðar hvíld eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, sem Drottinn, Guð yðar, gefur þeim. Þá skuluð þér snúa aftur í eignarland yðar og setjast þar að, í landinu, sem Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar, austanmegin.``

16 Þeir svöruðu Jósúa á þessa leið: ,,Vér skulum gjöra allt sem þú býður oss, og fara hvert sem þú sendir oss. 17 Eins og vér í öllu hlýddum Móse, svo viljum vér og hlýða þér. Veri Drottinn, Guð þinn, með þér, eins og hann var með Móse. 18 Hver sá er þverskallast gegn skipun þinni og hlýðir ekki orðum þínum í öllu, sem þú býður oss, skal líflátinn verða. Vertu aðeins hughraustur og öruggur.``