Jósúabók 5

<< Jósúabók 5 >>
Joshua 5 Icelandic
 

1 Allir konungar Amoríta, þeirra er bjuggu fyrir vestan Jórdan, og allir konungar Kanaaníta, sem búa við hafið, heyrðu, að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan fyrir Ísraelsmönnum, uns þeir voru komnir yfir um. Þá kom þeim æðra í brjóst og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsmönnum.

2 Í það mund sagði Drottinn við Jósúa: ,,Gjör þér steinhnífa og umsker Ísraelsmenn öðru sinni.`` 3 Jósúa gjörði sér þá steinhnífa og umskar Ísraelsmenn á Yfirhúðahæð. 4 En sú var orsök til þess, að Jósúa umskar þá, að allur lýðurinn, sem af Egyptalandi fór, karlmennirnir, allir vígir menn, höfðu dáið í eyðimörkinni á leiðinni, eftir að þeir voru farnir af Egyptalandi. 5 Allir þeir, er þaðan fóru, höfðu verið umskornir, en allir þeir, sem fæðst höfðu í eyðimörkinni á leiðinni eftir brottför þeirra af Egyptalandi, höfðu eigi verið umskornir. 6 Í fjörutíu ár fóru Ísraelsmenn um eyðimörkina, uns allt það fólk, allir vígir menn, er farið höfðu af Egyptalandi, voru dánir, því að þeir hlýddu ekki raust Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið þeim, að þeir skyldu ekki fá að sjá landið, sem hann sór feðrum þeirra að gefa oss, _ land, sem flýtur í mjólk og hunangi. 7 En hann hafði látið sonu þeirra koma í þeirra stað. Þá umskar Jósúa, því að þeir voru óumskornir, þar eð þeir höfðu eigi verið umskornir á leiðinni.

8 Er gjörvallt fólkið hafði verið umskorið, héldu þeir kyrru fyrir, hver á sínum stað, í herbúðunum, uns þeir voru grónir. 9 Þá sagði Drottinn við Jósúa: ,,Í dag hefi ég velt af yður brigsli Egypta!`` Fyrir því heitir þessi staður Gilgal fram á þennan dag.

10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi. 11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag. 12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið.

13 Það bar til, er Jósúa var staddur hjá Jeríkó, að hann leit upp og sá, hvar maður stóð gegnt honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og sagði við hann: ,,Hvort ert þú vor maður eða af óvinum vorum?`` 14 Hann svaraði: ,,Nei! heldur er ég fyrirliði fyrir hersveit Drottins. Nú er ég kominn.`` Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, laut og sagði: ,,Hvað vilt þú, herra, mæla við þjón þinn?`` 15 Þá sagði fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins við Jósúa: ,,Drag skó þína af fótum þér, því að það er heilagur staður, er þú stendur á!`` Og Jósúa gjörði svo.