Jobsbók 40

<< Jobsbók 40 >>
Job 40 Icelandic
 

1 Og Drottinn mælti til Jobs og sagði:

2 Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka? Sá er sakir ber á Guð, svari hann þessu!

3 Þá svaraði Job Drottni og sagði:

4 Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn.

5 Einu sinni hefi ég talað, og endurtek það eigi, _ tvisvar, og gjöri það ekki oftar.

6 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

7 Gyrð lendar þínar eins og maður. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

8 Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu, dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur?

9 Hefir þú þá armlegg eins og Guð, og getur þú þrumað með slíkri rödd sem hann?

10 Skrýð þig vegsemd og tign, íklæð þig dýrð og ljóma!

11 Lát úthellast strauma reiði þinnar og varpa til jarðar með einu tilliti sérhverjum dramblátum.

12 Auðmýk þú sérhvern dramblátan með einu tilliti, og troð þú hina óguðlegu niður þar sem þeir standa.

13 Byrg þú þá í moldu alla saman, loka andlit þeirra inni í myrkri,

14 þá skal ég líka lofa þig, fyrir það að hægri hönd þín veitir þér fulltingi.

15 Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig, hann etur gras eins og naut.

16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans og afl hans í kviðvöðvunum.

17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré, lærsinar hans eru ofnar saman.

18 Leggir hans eru eirpípur, beinin eins og járnstafur.

19 Hann er frumgróði Guðs verka, sá er skóp hann, gaf honum sverð hans.

20 Fjöllin láta honum grasbeit í té, og þar leika sér dýr merkurinnar.

21 Hann liggur undir lótusrunnum í skjóli við reyr og sef.

22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann, lækjarpílviðirnir lykja um hann.

23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki, hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans.

24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum, getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?