Harmljóðin 2

<< Harmljóðin 2 >>
Lamentations 2 Icelandic
 

1 Æ, hversu hylur Drottinn í reiði sinni dótturina Síon skýi. Frá himni varpaði hann til jarðar vegsemd Ísraels og minntist ekki fótskarar sinnar á degi reiði sinnar.

2 Vægðarlaust eyddi Drottinn öll beitilönd Jakobs, reif niður í bræði sinni vígi Júda-dóttur, varpaði til jarðar, vanhelgaði ríkið og höfðingja þess,

3 hjó af í brennandi reiði öll horn Ísraels, dró að sér hægri hönd sína frammi fyrir óvinunum og brenndi Jakob eins og eldslogi, sem eyðir öllu umhverfis.

4 Hann benti boga sinn eins og óvinur, hægri hönd hans stóð föst eins og mótstöðumaður og myrti allt sem auganu var yndi í tjaldi dótturinnar Síon, jós út heift sinni eins og eldi.

5 Drottinn kom fram sem óvinur, eyddi Ísrael, eyddi allar hallir hans, umturnaði virkjum hans og hrúgaði upp í Júda-dóttur hryggð og harmi.

6 Hann hefir rifið niður skála sinn eins og garð, umturnað hátíðastað sínum. Drottinn lét gleymast í Síon hátíðir og hvíldardaga og útskúfaði í sinni áköfu reiði konungi og prestum.

7 Drottinn hefir hafnað altari sínu, smáð helgidóm sinn, ofurselt í óvina hendur hallarmúra hennar. Þeir létu óp glymja í musteri Drottins eins og á hátíðardegi.

8 Drottinn hafði ásett sér að eyða múr dótturinnar Síon. Hann útþandi mælivaðinn, aftraði eigi hendi sinni að eyða og steypti sorg yfir varnarvirki og múr, þau harma bæði saman.

9 Hlið hennar eru sokkin í jörðu, hann ónýtti og braut slagbranda hennar. Konungur hennar og höfðingjar eru meðal heiðingjanna, lögmálslausir, spámenn hennar fá ekki heldur framar vitranir frá Drottni.

10 Þeir sitja þegjandi á jörðinni, öldungar dótturinnar Síon, þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín, gyrst hærusekk, höfuð létu hníga að jörðu Jerúsalem-meyjar.

11 Augu mín daprast af gráti, iður mín ólga, hjarta mitt ætlar að springa yfir tortíming dóttur þjóðar minnar, er börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota á strætum borgarinnar.

12 Þau segja við mæður sínar: ,,Hvar er korn og vín?`` er þau hníga magnþrota eins og dauðsærðir menn á strætum borgarinnar, er þau gefa upp öndina í faðmi mæðra sinna.

13 Hvað á ég að taka til dæmis um þig, við hvað líkja þér, þú dóttirin Jerúsalem? Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig, þú mærin, dóttirin Síon? Já, sár þitt er stórt eins og hafið, hver gæti læknað þig?

14 Spámenn þínir birtu þér tálsýnir og hégóma, en drógu ekki skýluna af misgjörð þinni til þess að snúa við högum þínum, heldur birtu þér spár til táls og ginninga.

15 Yfir þér skelltu lófum saman allir þeir er um veginn fóru, blístruðu og skóku höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem: ,,Er þetta borgin, hin alfagra, unun allrar jarðarinnar?``

16 Yfir þér glenntu upp ginið allir óvinir þínir, blístruðu og nístu tönnum, sögðu: ,,Vér höfum gjöreytt hana! Já, eftir þessum degi höfum vér beðið, vér höfum lifað hann, vér höfum séð hann!``

17 Drottinn hefir framkvæmt það, er hann hafði ákveðið, efnt orð sín, þau er hann hefir boðið frá því forðum daga, hefir rifið niður vægðarlaust og látið óvinina fagna yfir þér, hann hóf horn fjenda þinna.

18 Hrópa þú hátt til Drottins, þú mærin, dóttirin Síon. Lát tárin renna eins og læk dag og nótt, unn þér engrar hvíldar, auga þitt láti ekki hlé á verða.

19 Á fætur! Kveina um nætur, í byrjun hverrar næturvöku, úthell hjarta þínu eins og vatni frammi fyrir augliti Drottins, fórnaðu höndum til hans fyrir lífi barna þinna, sem hníga magnþrota af hungri á öllum strætamótum.

20 Sjá, Drottinn, og lít á, hverjum þú hefir gjört slíkt! Eiga konur að eta lífsafkvæmi sín, börnin sem þær bera á örmum? Eiga myrtir að verða í helgidómi Drottins prestar og spámenn?

21 Vegnir liggja á strætunum sveinar og öldungar. Meyjar mínar og æskumenn féllu fyrir sverði, þú myrtir á degi reiði þinnar, slátraðir vægðarlaust.

22 Þú stefnir eins og á hátíðardegi skelfingum að mér úr öllum áttum. Á reiðidegi Drottins var enginn, er af kæmist og eftir yrði. Þá sem ég hefi fóstrað og uppalið, þá hefir óvinur minn afmáð.