<< Bréf Páls til Galatamanna 4 >> Galatians 4 Icelandic | |
1 Með öðrum orðum: Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt.
2 Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið.
3 Þannig vorum vér einnig, er vér vorum ófullveðja, þrælbundnir undir heimsvættirnar.
4 En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _
5 til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn.
6 En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: ,,Abba, faðir!``
7 Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.
8 Forðum, er þér þekktuð ekki Guð, þá voruð þér þrælar þeirra, sem í eðli sínu eru ekki guðir.
9 En nú, eftir að þér þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir yður, hvernig getið þér snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þér þræla undir þeim að nýju?
10 Þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum.
11 Ég er hræddur um yður, að ég kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis.
12 Ég bið yður, bræður: Verðið eins og ég, því að ég er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn.
13 Þér vitið, að sjúkleiki minn varð tilefni til þess, að ég fyrst boðaði yður fagnaðarerindið.
14 En þér létuð ekki líkamsásigkomulag mitt verða yður til ásteytingar og óvirtuð mig ekki né sýnduð mér óbeit, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum.
15 Hvað er nú orðið úr blessunarbænum yðar? Það vitni ber ég yður, að augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér, ef auðið hefði verið.
16 Er ég þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að ég segi yður sannleikann?
17 Þeir láta sér annt um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir einangra yður, til þess að þér látið yður annt um þá.
18 Það er ávallt gott að láta sér annt um það, sem gott er, og ekki aðeins meðan ég er hjá yður,
19 börn mín, sem ég að nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður!
20 Ég vildi ég væri nú hjá yður og gæti talað nýjum rómi, því að ég er ráðalaus með yður.
21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir?
22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni.
23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti.
24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar;
25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum.
26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor,
27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á.
28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak.
29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú.
30 En hvað segir ritningin? ,,Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.``
31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.