Síðari Samúelsbók 1

<< Síðari Samúelsbók 1 >>
2 Samuel 1 Icelandic
 

1 Eftir dauða Sáls, þá er Davíð var heim kominn og hafði unnið sigur á Amalekítum og hann hafði verið tvo daga um kyrrt í Siklag, 2 þá kom skyndilega þriðja daginn maður úr herbúðum Sáls. Var hann í rifnum klæðum og hafði ausið mold yfir höfuð sér. Og er hann kom til Davíðs, féll hann til jarðar og laut honum. 3 Og Davíð sagði við hann: ,,Hvaðan kemur þú?`` Hann svaraði honum: ,,Ég komst undan úr herbúðum Ísraels.`` 4 Davíð sagði við hann: ,,Hvernig hefir gengið? Seg mér það.`` Hann svaraði: ,,Liðið er flúið úr orustunni, og margir úr liðinu eru líka fallnir og dauðir. Líka eru þeir Sál og Jónatan sonur hans dauðir.`` 5 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: ,,Hvernig veistu það, að þeir Sál og Jónatan sonur hans eru dauðir?`` 6 Þá svaraði maðurinn, sem flutti honum tíðindin: ,,Alveg af tilviljun kom ég upp á Gilbóafjall. Þar hitti ég Sál. Studdist hann við spjót sitt, en vagnar og riddarar voru á hælum honum. 7 Hann sneri sér þá við, og er hann sá mig, kallaði hann á mig, og ég svaraði: ,Hér er ég.` 8 Og hann sagði við mig: ,Hver ert þú?` Ég svaraði: ,Ég er Amalekíti.` 9 Þá sagði hann við mig: ,Kom þú hingað til mín og deyð þú mig, því að mig sundlar, og þó er ég enn með fullu fjöri.` 10 Þá gekk ég til hans og vann á honum, því að ég vissi að hann gat ekki lifað eftir ófarir sínar. Tók ég kórónuna af höfði honum og hringinn af armlegg hans og færi ég þér nú, herra minn!``

11 Þá þreif Davíð í klæði sín og reif þau sundur. Svo gjörðu og allir menn, þeir er með honum voru. 12 Og þeir syrgðu og grétu og föstuðu til kvelds sakir Sáls og Jónatans sonar hans og sakir lýðs Drottins og húss Ísraels, af því að þeir voru fallnir fyrir sverði. 13 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: ,,Hvaðan ert þú?`` Hann svaraði: ,,Ég er sonur hjábýlings nokkurs, sem er Amalekíti.`` 14 Þá sagði Davíð við hann: ,,Hvernig dirfðist þú að hefja hönd til þess að drepa Drottins smurða?`` 15 Og Davíð kallaði á einn af sveinunum og mælti: ,,Kom þú hingað og drep hann.`` Og hann hjó hann banahögg. 16 En Davíð mælti til hans: ,,Blóð þitt komi yfir höfuð þér! því að þú hefir sjálfur kveðið upp dóm yfir þér, er þú sagðir: ,Ég hefi deytt Drottins smurða.```

17 Davíð orti þetta sorgarkvæði eftir þá Sál og Jónatan son hans, 18 og hann bauð að kenna Júda sonum Kvæðið um bogann. Sjá, það er ritað í Bók hinna réttlátu:

19 Prýðin þín, Ísrael, liggur vegin á fjöllum þínum. En að hetjurnar skuli vera fallnar!

20 Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum, svo að dætur Filista fagni eigi og dætur óumskorinna hlakki eigi.

21 Þér Gilbóafjöll, eigi drjúpi dögg né regn á yður, þér svikalönd, því að þar var snarað burt skildi kappanna, skildi Sáls, sem eigi verður framar olíu smurður.

22 Frá blóði hinna vegnu, frá feiti kappanna hörfaði bogi Jónatans ekki aftur, og eigi hvarf sverð Sáls heim við svo búið.

23 Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu, skildu eigi heldur í dauðanum. Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari.

24 Ísraels dætur, grátið Sál! Hann skrýddi yður skarlati yndislega, hann festi gullskart á klæðnað yðar.

25 En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum!

26 Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.

27 En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!