Síðara bréf Páls til Kori 8

<< Síðara bréf Páls til Kori 8 >>
2 Corinthians 8 Icelandic
 

1 En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu. 2 Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim. 3 Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum 4 lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu. 5 Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs. 6 Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað.

7 Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu. 8 Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur. 9 Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans. 10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum. 11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa. 12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til. 13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna, 14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður, 15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir yður. 17 Reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum. 18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins. 19 Og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með líknargjöf þessa, sem vér höfum unnið að, Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika vorn. 20 Vér höfum gjört þessa ráðstöfun til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir. 21 Því að vér ástundum það sem gott er, ekki aðeins fyrir Drottni, heldur og fyrir mönnum. 22 Með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til yðar. 23 Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá yður, og bræður vorir eru sendiboðar safnaðanna og Kristi til vegsemdar. 24 Sýnið því söfnuðunum merki elsku yðar, svo að það verði þeim ljóst, að það var ekki að ástæðulausu, að vér hrósuðum yður við þá.