Fyrri Samúelsbók 8

<< Fyrri Samúelsbók 8 >>
1 Samuel 8 Icelandic
 

1 Er Samúel var orðinn gamall, setti hann sonu sína dómara yfir Ísrael. 2 Frumgetinn sonur hans hét Jóel, en annar sonur hans Abía. Þeir dæmdu í Beerseba. 3 En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans, heldur hneigðust þeir til ágirndar og þágu mútur og hölluðu réttinum.

4 Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama 5 og sögðu við hann: ,,Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum.`` 6 En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: ,,Gef oss konung til þess að dæma oss!`` Og Samúel bað til Drottins. 7 Drottinn sagði við Samúel: ,,Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim. 8 Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig. 9 Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim.``

10 Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins 11 og mælti: ,,Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans, 12 og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi. 13 Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka. 14 Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum, 15 og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum. 16 Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka. 17 Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans. 18 Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður.``

19 En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: ,,Nei, konungur skal yfir oss vera, 20 svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora.`` 21 Samúel hlýddi á öll ummæli lýðsins og tjáði þau fyrir Drottni. 22 En Drottinn sagði við Samúel: ,,Lát þú að orðum þeirra og set yfir þá konung.`` Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: ,,Farið burt, hver til síns heimkynnis.``