Fyrri bók konunganna 3

<< Fyrri bók konunganna 3 >>
1 Kings 3 Icelandic
 

1 Þegar Salómon konungur var orðinn fastur í sessi, mægðist hann við Faraó Egyptalandskonung og fékk dóttur Faraós og flutti hana til Davíðsborgar, uns hann hafði lokið við að reisa höll sína, musteri Drottins og múra umhverfis Jerúsalem. 2 En lýðurinn fórnaði enn á fórnarhæðunum, því að allt til þess tíma var ekkert hús reist nafni Drottins.

3 En Salómon elskaði Drottin, svo að hann hélt lög Davíðs föður síns, en þó færði hann sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðunum. 4 Konungur fór til Gíbeon til þess að fórna þar, því að það var aðalfórnarhæðin. Fórnaði Salómon þúsund brennifórnum á því altari. 5 Í Gíbeon vitraðist Drottinn Salómon í draumi um nótt, og Guð sagði: ,,Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér.``

6 Þá sagði Salómon: ,,Þú auðsýndir þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla miskunn, þar eð hann gekk fyrir augliti þínu í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni við þig. Og þú lést haldast við hann þessa miklu miskunn og gafst honum son, sem situr í hásæti hans, eins og nú er fram komið. 7 Nú hefir þú þá, Drottinn Guð minn, gjört þjón þinn að konungi í stað Davíðs föður míns. En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð. 8 Og þjónn þinn er mitt á meðal þjóðar þinnar, er þú hefir útvalið, mikillar þjóðar, er eigi má telja eða tölu á koma fyrir fjölda sakir. 9 Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu. Því að hver gæti annars stjórnað þessari fjölmennu þjóð þinni?``

10 Drottni líkaði vel, að Salómon bað um þetta. 11 Þá sagði Guð við hann: ,,Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja, hvað rétt er í málum manna, 12 þá vil ég veita þér bæn þína. Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta, svo að þinn líki hefir ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig. 13 Og líka gef ég þér það, sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður, svo að þinn líki skal eigi verða meðal konunganna alla þína daga. 14 Og ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín og skipanir, eins og Davíð faðir þinn gjörði, þá mun ég gefa þér langa lífdaga.``

15 Síðan vaknaði Salómon, og sjá: Það var draumur. Og er hann var kominn til Jerúsalem, gekk hann fyrir sáttmálsörk Drottins og bar fram brennifórnir og fórnaði heillafórnum og gjörði veislu öllum þjónum sínum.

16 Tvær portkonur komu til konungs og gengu fyrir hann. 17 Og önnur konan sagði: ,,Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sama húsinu, og ól ég barn í húsinu hjá henni. 18 En á þriðja degi eftir að ég hafði alið barnið, ól og kona þessi barn. Og við vorum saman og enginn annar hjá okkur í húsinu. Við vorum tvær einar í húsinu. 19 Þá dó sonur þessarar konu um nótt, af því að hún hafði lagst ofan á hann. 20 En hún reis á fætur um miðja nótt og tók son minn frá mér, meðan ambátt þín svaf, og lagði hann að brjósti sér, en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér. 21 En er ég reis um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum að sjúga, sjá, þá var hann dauður! Og er ég virti hann fyrir mér um morguninn, sjá, þá var það ekki sonur minn, sá er ég hafði fætt.`` 22 En hin konan sagði: ,,Nei, það er minn sonur, sem er lifandi, en þinn sonur er dauður.`` En sú fyrri sagði: ,,Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi.`` Þannig þráttuðu þær frammi fyrir konungi.

23 Þá mælti konungur: ,,Önnur segir: ,Það er minn sonur, sem er lifandi, og þinn sonur, sem er dauður.` En hin segir: ,Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi.``` 24 Og konungur sagði: ,,Færið mér sverð.`` Og þeir færðu konungi sverðið. 25 Þá mælti konungur: ,,Höggvið sundur barnið, sem lifir, í tvo hluti og fáið sinn helminginn hvorri.`` 26 Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konung, _ því að ástin til barnsins brann í brjósti hennar _, hún mælti: ,,Æ, herra minn, gefið henni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki.`` En hin sagði: ,,Njóti þá hvorug okkar þess. Höggvið það sundur!`` 27 Þá svaraði konungur og sagði: ,,Fáið hinni konunni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki. Hún er móðir þess.`` 28 Og allur Ísrael heyrði dóminn, sem konungur hafði dæmt. Og þeir óttuðust konung, því að þeir sáu, að hann var gæddur guðlegri speki til þess að kveða upp dóma.