Bréf Páls til Rómverja 10

<< Bréf Páls til Rómverja 10 >>
Romans 10 Icelandic
 

1 Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða. 2 Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi. 3 Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs. 4 En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.

5 Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: ,,Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það.`` 6 En réttlætið af trúnni mælir þannig: ,,Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?`` _ það er: til að sækja Krist ofan, _ 7 eða: ,,Hver mun stíga niður í undirdjúpið?`` _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum. 8 Hvað segir það svo? ,,Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu.`` Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. 9 Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. 10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. 11 Ritningin segir: ,,Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða.`` 12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; 13 því að ,,hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða.``

14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? 15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: ,,Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.``

16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: ,,Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?`` 17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.

18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, ,,raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.``

19 Og ég spyr: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: ,,Vekja vil ég yður til afbrýði gegn þjóð, sem ekki er þjóð, egna vil ég yður til reiði gegn óviturri þjóð.``

20 Og Jesaja er svo djarfmáll að segja: ,,Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér.``

21 En við Ísrael segir hann: ,,Allan daginn breiddi ég út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð.``