<< Orðskviðirnir 25 >> Proverbs 25 Icelandic | |
1 Þetta eru líka orðskviðir Salómons, er menn Hiskía Júdakonungs hafa safnað.
2 Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál.
3 Eins og hæð himins og dýpt jarðar, svo eru konungahjörtun órannsakanleg.
4 Sé sorinn tekinn úr silfrinu, þá fær smiðurinn ker úr því.
5 Séu hinir óguðlegu teknir burt frá augliti konungsins, þá mun hásæti hans staðfestast fyrir réttlæti.
6 Stær þig eigi frammi fyrir konunginum og ryðst eigi í rúm stórmenna,
7 því að betra er að menn segi við þig: ,,Fær þig hingað upp!`` heldur en að menn gjöri þér læging frammi fyrir tignarmanni. Hvað sem augu þín kunna að hafa séð,
8 þá ver eigi skjótur til málsóknar, því að hvað ætlar þú síðan að gjöra, þá er náungi þinn gjörir þér sneypu?
9 Rek þú mál þitt gegn náunga þínum, en ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns,
10 til þess að sá sem heyrir það, smáni þig ekki og þú losnir aldrei við illan orðróm.
11 Gullepli í skrautlegum silfurskálum _ svo eru orð í tíma töluð.
12 Eins og gullhringur og skartgripur af skíru gulli, svo er vitur áminnandi heyranda eyra.
13 Eins og snjósvali um uppskerutímann, svo er áreiðanlegur sendimaður þeim er sendir hann, því að hann hressir sál húsbónda síns.
14 Ský og vindur, og þó engin rigning _ svo er sá, sem hrósar sér af gjafmildi, en gefur þó ekkert.
15 Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf, og mjúk tunga mylur bein.
16 Finnir þú hunang, þá et sem þér nægir, svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og ælir því upp aftur.
17 Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns, svo að hann verði ekki leiður á þér og hati þig.
18 Hamar og sverð og hvöss ör _ svo er maður, sem ber falsvitni gegn náunga sínum.
19 Molnandi tönn og hrasandi fótur _ svo er traust á svikara á neyðarinnar degi.
20 Að fara úr fötum í kalsaveðri _ að hella ediki út í saltpétur _ eins er að syngja skapvondum ljóð.
21 Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, og ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka,
22 því að þú safnar glóðum elds yfir höfuð honum, og Drottinn mun endurgjalda þér það.
23 Norðanvindurinn leiðir fram regn og launskraf reiðileg andlit.
24 Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu.
25 Eins og kalt vatn er dauðþyrstum manni, svo er góð fregn af fjarlægu landi.
26 Eins og grugguð lind og skemmdur brunnur, svo er réttlátur maður, sem titrar frammi fyrir óguðlegum manni.
27 Það er ekki gott að eta of mikið hunang, ver því spar á hólið.
28 Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.