<< Fyrra bréf Páls til Korin 11 >> 1 Corinthians 11 Icelandic | |
1 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.
2 Ég hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær.
3 En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.
4 Sérhver sá maður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt.
5 En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig.
6 Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu.
7 Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins.
8 Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum,
9 og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins.
10 Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér.
11 Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin,
12 því að eins og konan er komin af manninum, svo er og maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði.
13 Dæmið sjálfir: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð?
14 Kennir ekki sjálf náttúran yður, að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd,
15 en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? Því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað.
16 En ætli nú einhver sér að gjöra þetta að kappsmáli, þá viti sá, að annað er ekki venja vor eða safnaða Guðs.
17 En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs.
18 Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti.
19 Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru.
20 Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins,
21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan.
22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki.
23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð,
24 gjörði þakkir, braut það og sagði: ,,Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu.``
25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: ,,Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.``
26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.
27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.
28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.
29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.
30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.
31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.
32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.
33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast.
34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.