Opinberun Jóhannesar 16

<< Opinberun Jóhannesar 16 >>
Revelation 16 Icelandic
 

1 Og ég heyrði raust mikla frá musterinu segja við englana sjö: ,,Farið og hellið úr þeim sjö skálum Guðs reiði yfir jörðina.``

2 Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina, sem höfðu merki dýrsins og tilbáðu líkneski þess.

3 Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni, og sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.

4 Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði. 5 Og ég heyrði engil vatnanna segja: ,,Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi. 6 Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og því hefur þú gefið þeim blóð að drekka. Maklegir eru þeir þess.`` 7 Og ég heyrði altarið segja: ,,Já, Drottinn Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir.``

8 Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi. 9 Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina.

10 Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl. 11 Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum.

12 Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.

13 Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru, 14 því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. 15 ,,Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans.`` 16 Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.

17 Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: ,,Það er fram komið.`` 18 Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti. 19 Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar. 20 Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til. 21 Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.