<< Opinberun Jóhannesar 12 >> Revelation 12 Icelandic | |
1 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.
2 Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.
3 Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn.
4 Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.
5 Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.
6 En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.
7 Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,
8 en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.
9 Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.
10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: ,,Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.
11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.
12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.``
13 Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið.
14 Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins.
15 Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum.
16 En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér.
17 Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú. [ (Revelation of John 12:18) Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn. ]