Matteusarguðspjall 19

<< Matteusarguðspjall 19 >>
Matthew 19 Icelandic
 

1 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar. 2 Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá.

3 Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: ,,Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?`` 4 Hann svaraði: ,,Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu 5 og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.` 6 Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.`` 7 Þeir segja við hann: ,,Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?`` 8 Hann svarar: ,,Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig. 9 Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór.``

10 Þá sögðu lærisveinar hans: ,,Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast.`` 11 Hann svaraði þeim: ,,Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. 12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær.``

13 Þá færðu menn til hans börn, að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim, en lærisveinar hans átöldu þá. 14 En Jesús sagði: ,,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki.`` 15 Og hann lagði hendur yfir þau og fór þaðan.

16 Þá kom til hans maður og spurði: ,,Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?`` 17 Jesús sagði við hann: ,,Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin.`` 18 Hann spurði: ,,Hver?`` Jesús sagði: ,,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, 19 heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.`` 20 Þá sagði ungi maðurinn: ,,Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?`` 21 Jesús sagði við hann: ,,Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.`` 22 Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.

23 En Jesús sagði við lærisveina sína: ,,Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. 24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.`` 25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: ,,Hver getur þá orðið hólpinn?`` 26 Jesús horfði á þá og sagði: ,,Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt.``

27 Þá sagði Pétur við hann: ,,Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?`` 28 Jesús sagði við þá: ,,Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. 29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf. 30 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.