<< Markúsarguðspjall 4 >> Mark 4 Icelandic | |
1 Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið.
2 Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:
3 ,,Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá,
4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
6 En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt.
8 En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.``
9 Og hann sagði: ,,Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!``
10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar.
11 Hann svaraði þeim: ,,Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum,
12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið.``
13 Og hann segir við þá: ,,Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu?
14 Sáðmaðurinn sáir orðinu.
15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð.
16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það,
17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.
18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið,
19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.
20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.``
21 Og hann sagði við þá: ,,Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk? Er það ekki sett á ljósastiku?
22 Því að ekkert er hulið, að það verði eigi gjört opinbert, né leynt, að það komi ekki í ljós.
23 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!``
24 Enn sagði hann við þá: ,,Gætið að, hvað þér heyrið. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt.
25 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.``
26 Þá sagði hann: ,,Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð.
27 Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti.
28 Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.
29 En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin.``
30 Og hann sagði: ,,Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?
31 Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu.
32 En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.``
33 Í mörgum slíkum dæmisögum flutti hann þeim orðið, svo sem þeir gátu numið,
34 og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra, en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt, þegar þeir voru einir.
35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: ,,Förum yfir um!``
36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum.
37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti.
38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: ,,Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?``
39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ,,Þegi þú, haf hljótt um þig!`` Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.
40 Og hann sagði við þá: ,,Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?``
41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: ,,Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.``