Bréf Páls til Títusar 2

<< Bréf Páls til Títusar 2 >>
Titus 2 Icelandic
 

1 En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu. 2 Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu.

3 Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér, 4 til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, 5 vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.

6 Svo skalt þú og áminna hina yngri menn að vera hóglátir. 7 Sýn þig sjálfan í öllum greinum sem fyrirmynd í góðum verkum. Vertu grandvar í fræðslu þinni og heilhuga, svo hún verði 8 heilnæm og óaðfinnanleg og andstæðingurinn fyrirverði sig, þegar hann hefur ekkert illt um oss að segja.

9 Áminn þræla, að þeir séu undirgefnir húsbændum sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir, 10 ekki hnuplsamir, heldur skulu þeir auðsýna hvers konar góða trúmennsku, til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.

11 Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. 12 Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, 13 í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. 14 Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

15 Tala þú þetta og áminn og vanda um með allri röggsemi. Lát engan lítilsvirða þig.