<< Orðskviðirnir 12 >> Proverbs 12 Icelandic | |
1 Sá sem elskar aga, elskar þekking, en sá sem hatar umvöndun, er heimskur.
2 Hinn góði hlýtur velþóknun af Drottni, en hrekkvísan mann fyrirdæmir hann.
3 Enginn maður nær fótfestu með óguðleika, en rót hinna réttlátu mun eigi bifast.
4 Væn kona er kóróna manns síns, en vond kona er sem rotnun í beinum hans.
5 Hugsanir réttlátra stefna að rétti, en ráðagjörðir óguðlegra að svikum.
6 Orð óguðlegra brugga banaráð, en munnur hreinskilinna frelsar þá.
7 Óguðlegir kollsteypast og eru eigi framar til, en hús réttlátra stendur.
8 Manninum verður hrósað eftir vitsmunum hans, en sá sem er rangsnúinn í hjarta, verður fyrirlitinn.
9 Betra er að láta lítið yfir sér og hafa þjón en að berast mikið á og hafa ekki ofan í sig.
10 Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna, en hjarta óguðlegra er hart.
11 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur.
12 Hinn óguðlegi ágirnist feng hinna vondu, en rót réttlátra er varanleg.
13 Yfirsjón varanna er ill snara, en hinn réttláti bjargast úr nauðum.
14 Af ávexti munnsins mettast maðurinn gæðum, og það sem hendur hans hafa öðrum gjört, kemur aftur yfir hann.
15 Afglapanum finnst sinn vegur réttur, en vitur maður hlýðir á ráð.
16 Gremja afglapans kemur þegar í ljós, en kænn maður dylur smán sína.
17 Sá sem segir sannleikann hispurslaust, mælir fram það sem rétt er, en falsvotturinn svik.
18 Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.
19 Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.
20 Yfir svikum búa þeir, er illt brugga, en gleði valda þeir, er ráða til friðar.
21 Réttlátum manni ber aldrei böl að hendi, en óhamingja hleðst á óguðlega.
22 Lygavarir eru Drottni andstyggð, en þeir sem sannleik iðka, eru yndi hans.
23 Kænn maður fer dult með þekking sína, en hjarta heimskingjanna fer hátt með flónsku sína.
24 Hönd hinna iðnu mun drottna, en hangandi höndin verður vinnuskyld.
25 Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.
26 Hinum réttláta vegnar betur en öðrum, en vegur óguðlegra leiðir þá í villu.
27 Letinginn nær ekki villibráðinni, en iðnin er manninum dýrmætur auður.
28 Á vegi réttlætisins er líf, en glæpaleiðin liggur út í dauðann.