Síðari Samúelsbók 21

<< Síðari Samúelsbók 21 >>
2 Samuel 21 Icelandic
 

1 Á dögum Davíðs varð hallæri í þrjú ár samfleytt. Gekk þá Davíð til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði: ,,Á Sál og ætt hans hvílir blóðsök fyrir það, að hann drap Gíbeoníta.`` 2 Þá lét konungur kalla Gíbeoníta og sagði við þá _ (Gíbeonítar heyrðu ekki til Ísraelsmönnum, heldur leifum Amoríta, og þótt Ísraelsmenn hefðu unnið þeim eiða, leitaðist Sál við að drepa þá, af vandlætingasemi vegna Ísraelsmanna og Júda.) _ 3 Og Davíð sagði við Gíbeoníta: ,,Hvað á ég að gjöra fyrir yður, og með hverju á ég að friðþægja, til þess að þér blessið arfleifð Drottins?`` 4 Þá sögðu Gíbeonítar við hann: ,,Það er ekki silfur og gull, sem vér sækjumst eftir af Sál og ætt hans, og engan mann viljum vér feigan í Ísrael.`` Hann svaraði: ,,Hvað segið þér, að ég eigi að gjöra fyrir yður?`` 5 Þá sögðu þeir við konung: ,,Maðurinn sem eyddi oss og hugði að afmá oss, svo að vér værum ekki lengur til í öllu Ísraels landi, _ 6 af niðjum hans skulu oss fengnir sjö menn, svo að vér megum bera þá út fyrir Drottin í Gíbeon á fjalli Drottins.`` Konungur sagði: ,,Ég skal fá yður þá.``

7 Konungur þyrmdi þó Mefíbóset, Jónatanssyni, Sálssonar, vegna eiðs þess við Drottin, er þeir höfðu unnið hvor öðrum, Davíð og Jónatan, sonur Sáls. 8 En konungur tók báða sonu Rispu Ajasdóttur, er hún hafði fætt Sál, Armóní og Mefíbóset, og fimm sonu Merab, dóttur Sáls, er hún hafði fætt Adríel Barsillaísyni frá Mehóla, 9 og fékk þá í hendur Gíbeonítum. Og þeir báru þá út fyrir Drottin á fjallinu, svo að þeir dóu sjö saman. Voru þeir teknir af lífi fyrstu daga uppskerunnar.

10 En Rispa Ajasdóttir tók hærusekk og breiddi hann út á klettinum handa sér að hvílurúmi, frá byrjun uppskerunnar þar til er regn streymdi af himni yfir þá, og eigi leyfði hún fuglum himinsins að setjast að þeim um daga, né dýrum merkurinnar um nætur. 11 En er Davíð var sagt frá, hvað Rispa Ajasdóttir, hjákona Sáls, hafði gjört, 12 fór Davíð og sótti bein Sáls og bein Jónatans sonar hans til Jabesmanna í Gíleað, en þeir höfðu stolið þeim á torginu í Bet San, þar sem Filistar höfðu hengt þá upp, daginn sem Filistar drápu Sál á Gilbóa. 13 Hann kom þaðan með bein Sáls og bein Jónatans sonar hans. Var síðan safnað saman beinum hinna útbornu 14 og þau grafin með beinum Sáls og beinum Jónatans sonar hans í landi Benjamíns í Sela, í gröf Kíss föður hans. Var allt gjört sem konungur bauð, og eftir það líknaði Guð landinu.

15 Enn áttu Filistar ófrið við Ísrael. Fór Davíð með menn sína til þess að berjast við Filista, og varð Davíð móður. 16 Þá hugði Jisbi Benob, einn af niðjum Refaíta (spjót hans vó þrjú hundruð sikla eirs, og hann var gyrtur nýju sverði), að drepa Davíð. 17 Þá kom Abísaí Serújuson honum til hjálpar og hjó Filistann banahögg. Þá sárbændu menn Davíðs hann og sögðu: ,,Þú mátt eigi framar með oss fara í hernað, svo að þú slökkvir eigi lampa Ísraels.``

18 Seinna tókst enn orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Saf, sem og var einn af niðjum Refaíta. 19 Og enn tókst orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Elkanan, sonur Jaare Orgím frá Betlehem, Golíat frá Gat, en spjótskaft hans var sem vefjarrifur. 20 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum. 21 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann. 22 Þessir fjórir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.