<< Ljóðaljóðin 1 >> Song of Solomon 1 Icelandic | |
1 Ljóðaljóðin, eftir Salómon.
2 Hann kyssi mig kossi munns síns, því að ást þín er betri en vín.
3 Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum, nafn þitt eins og úthellt olía, þess vegna elska meyjarnar þig.
4 Drag mig á eftir þér! Við skulum flýta okkur! Konungurinn leiði mig í herbergi sín! Fögnum og gleðjumst yfir þér, vegsömum ást þína meir en vín _ með réttu elska þær þig!
5 Svört er ég, og þó yndisleg, þér Jerúsalemdætur, sem tjöld Kedars, sem tjalddúkar Salómons.
6 Takið ekki til þess, að ég er svartleit, því að sólin hefir brennt mig. Synir móður minnar reiddust mér, þeir settu mig til að gæta víngarða _ míns eigin víngarðs hefi ég eigi gætt.
7 Seg mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldur þú hjörð þinni til haga, hvar bælir þú um hádegið? Því að hví skal ég vera eins og villuráfandi hjá hjörðum félaga þinna?
8 Ef þú veist það eigi, þú hin fegursta meðal kvenna, þá far þú og rek för hjarðarinnar og hald kiðum þínum til haga hjá kofum hirðanna.
9 Við hryssurnar fyrir vagni Faraós líki ég þér, vina mín.
10 Yndislegar eru kinnar þínar fléttum prýddar, háls þinn undir perluböndum.
11 Gullfestar viljum vér gjöra þér, settar silfurhnöppum.
12 Meðan konungurinn hvíldi á legubekk sínum, lagði ilminn af nardussmyrslum mínum.
13 Unnusti minn er sem myrrubelgur, sem hvílist milli brjósta mér.
14 Kypur-ber er unnusti minn mér, úr víngörðunum í Engedí.
15 Hversu fögur ertu, vina mín, hversu fögur ertu! Augu þín eru dúfuaugu.
16 Hversu fagur ertu, unnusti minn, já indæll. Já, iðgræn er hvíla okkar.
17 Bjálkarnir í húsi okkar eru sedrusviðir, þiljur okkar kýprestré.