<< Opinberun Jóhannesar 20 >> Revelation 20 Icelandic | |
1 Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér.
2 Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár.
3 Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.
4 Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár.
5 En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan.
6 Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.
7 Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan verða leystur úr fangelsi sínu.
8 Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins.
9 Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim.
10 Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið er og falsspámaðurinn. Og þeir munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda.
11 Og ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað.
12 Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.
13 Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum.
14 Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.
15 Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.