Fyrsta bók Móse 46

<< Fyrsta bók Móse 46 >>
Genesis 46 Icelandic
 

1 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn. 2 Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: ,,Jakob, Jakob!`` Og hann svaraði: ,,Hér er ég.`` 3 Og hann sagði: ,,Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð. 4 Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar.``

5 Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á. 6 Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum. 7 Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands.

8 Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands: Jakob og synir hans: Rúben, frumgetinn son Jakobs. 9 Synir Rúbens: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. 10 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóar og Sál, sonur kanversku konunnar. 11 Synir Leví: Gerson, Kahat og Merarí. 12 Synir Júda: Ger, Ónan, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. Synir Peres voru: Hesron og Hamúl. 13 Synir Íssakars: Tóla, Púva, Job og Símron. 14 Synir Sebúlons: Sered, Elon og Jahleel. 15 Þessir voru synir Leu, sem hún fæddi Jakob í Mesópótamíu, ásamt Dínu dóttur hans. Allir synir hans og dætur voru að tölu þrjátíu og þrjú. 16 Synir Gaðs: Sífjón, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí. 17 Synir Assers: Jimna, Jísva, Jísví, Bría og Sera, systir þeirra. Synir Bría voru: Heber og Malkíel. 18 Þessir voru synir Silpu, sem Laban gaf Leu dóttur sinni. Hún ól Jakob þessa, sextán sálir. 19 Synir Rakelar, konu Jakobs: Jósef og Benjamín. 20 En Jósef fæddust synir í Egyptalandi: Manasse og Efraím, sem Asenat, dóttir Pótífera prests í Ón, ól honum. 21 Synir Benjamíns: Bela, Beker, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Múppím, Húppím og Ard. 22 Þetta voru synir Rakelar, sem hún ól Jakob, alls fjórtán sálir. 23 Sonur Dans: Húsín. 24 Synir Naftalí: Jahseel, Gúní, Jeser og Sillem. 25 Þessir voru synir Bílu, sem Laban gaf Rakel dóttur sinni, og þessa ól hún Jakob, sjö sálir alls. 26 Allar þær sálir, sem komu með Jakob til Egyptalands og af honum voru komnar, voru sextíu og sex að tölu, auk sonakvenna Jakobs. 27 Og synir Jósefs, sem honum höfðu fæðst í Egyptalandi, voru tveir að tölu. Allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, voru sjötíu að tölu.

28 Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands. 29 Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum. 30 Og Ísrael sagði við Jósef: ,,Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi.`` 31 Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: ,,Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið. 32 Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.` 33 Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?` 34 þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,` _ til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum.``