<< Esterarbók 8 >> Esther 8 Icelandic | |
1 Þennan sama dag gaf Ahasverus konungur Ester drottningu hús Hamans, fjandmanns Gyðinga. En Mordekai gekk fyrir konung, því að Ester hafði sagt honum, hvað hann væri sér.
2 Og konungur dró innsiglishringinn af hendi sér, þann er hann hafði látið taka af Haman, og fékk Mordekai hann. En Ester setti Mordekai yfir hús Hamans.
3 Og Ester talaði enn við konung, féll honum til fóta og bað hann grátandi að ónýta illskuráð Hamans Agagíta, þau er hann hafði upp hugsað gegn Gyðingum.
4 En konungur rétti gullsprotann út í móti Ester. Þá stóð Ester upp og gekk fyrir konung
5 og mælti: ,,Ef konunginum þóknast svo og hafi ég fundið náð í augum hans og sé konunginum það ekki ógeðfellt og ef hann hefir mætur á mér, þá sé nú gefin út skrifleg skipun til þess að afturkalla bréfin, ráðagerð Hamans Hamdatasonar Agagíta, þau er hann ritaði til þess að láta eyða Gyðingum í öllum skattlöndum konungs.
6 Því að hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á ógæfu þá, er koma á yfir þjóð mína, og hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á tortíming kynsmanna minna?``
7 Þá sagði Ahasverus konungur við Ester drottningu og Mordekai Gyðing: ,,Sjá, hús Hamans hefi ég gefið Ester, og sjálfur hefir hann verið festur á gálga, fyrir þá sök, að hann hafði lagt hendur á Gyðinga.
8 En skrifið þið nú um Gyðinga það er ykkur líkar í nafni konungs og innsiglið það með innsiglishring konungs. Því að ekkert það bréf, sem skrifað er í nafni konungs og innsiglað með innsiglishring konungs, verður afturkallað.``
9 Og skrifurum konungs var þá stefnt saman, hinn tuttugasta og þriðja dag hins þriðja mánaðar _ það er mánaðarins sívan _ og var þá skrifað með öllu svo sem Mordekai bauð, til Gyðinga og til jarlanna og til landstjóranna og til höfðingja skattlandanna frá Indlandi til Blálands, til skattlandanna hundrað tuttugu og sjö, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu, og einnig til Gyðinga með þeirra skrift og á þeirra tungu.
10 Og hann skrifaði í nafni Ahasverusar konungs og innsiglaði með innsiglishring konungs, og hann sendi bréf með ríðandi hraðboðum, sem riðu fyrirmannagæðingum úr stóði konungs,
11 þar sem konungur leyfði Gyðingum í öllum borgum að safnast saman og verja líf sitt og að eyða, deyða og tortíma öllum liðsafla þeirrar þjóðar og lands, er sýndi þeim fjandskap, jafnvel börnum og konum, og ræna fjármunum þeirra,
12 á einum degi í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, hinn þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar.
13 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum og til þess að Gyðingar skyldu vera viðbúnir þennan dag að hefna sín á óvinum sínum.
14 Hraðboðarnir, sem riðu fyrirmannagæðingunum, fóru af stað með skyndingu og flýti, að boði konungs, þegar er lagaboðið var gefið út í borginni Súsa.
15 En Mordekai gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, purpurabláum og hvítum, með stóra gullkórónu og í möttli úr býssus og rauðum purpura, og í borginni Súsa varð gleði mikil og fögnuður.
16 Og hjá Gyðingum var ljós og gleði, fögnuður og dýrð.
17 Og í öllum skattlöndum og öllum borgum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, var gleði og fögnuður meðal Gyðinga, veisluhöld og hátíðisdagur. Og margir hinna heiðnu landsbúa gjörðust Gyðingar, því að ótti við Gyðinga var yfir þá kominn.