<< Dómarabókin 10 >> Judges 10 Icelandic | |
1 Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum,
2 og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír.
3 Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár.
4 Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi.
5 Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón.
6 Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki.
7 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum.
8 Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað.
9 Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir.
10 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: ,,Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala.``
11 En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: ,,Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar,
12 Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra.
13 En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður.
14 Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum.``
15 Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: ,,Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag.``
16 Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels.
17 Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa.
18 En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: ,,Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!``