Jósúabók 20

<< Jósúabók 20 >>
Joshua 20 Icelandic
 

1 Drottinn talaði við Jósúa á þessa leið: 2 ,,Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Takið nú til griðastaðina, þá er ég hefi talað um við yður fyrir Móse, 3 að þangað megi flýja vegandi, sá er af vangá, óviljandi, hefir orðið manni að bana, svo að þeir séu yður hæli fyrir hefnanda. 4 Hann má flýja í einhverja af borgum þessum og nema staðar rétt fyrir utan borgarhliðið og skýra þar frá máli sínu í áheyrn öldunga borgar þeirrar. Skulu þeir taka við honum inn í borgina og fá honum stað, svo að hann megi búa hjá þeim. 5 Og ef hefnandinn eltir hann, þá skulu þeir eigi framselja vegandann í hendur honum, þar eð hann óviljandi hefir orðið náunga sínum að bana og eigi verið óvinur hans áður. 6 Og hann skal hafa aðsetur í borg þeirri, þar til er hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins, þar til sá æðsti prestur er dáinn, sem þá er. Þá má vegandinn hverfa aftur og fara heim til sinnar borgar og síns húss, þeirrar borgar, er hann flýði úr.``

7 Þá helguðu þeir Kedes í Galíleu á Naftalífjöllum, Síkem á Efraímfjöllum og Kirjat Arba, það er Hebron, á Júdafjöllum. 8 En hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó að austanverðu, létu þeir af hendi Beser í eyðimörkinni, á sléttlendinu, af kynkvísl Rúbens, Ramót í Gíleað af kynkvísl Gaðs og Gólan í Basan af kynkvísl Manasse. 9 Þetta voru borgirnar, sem tilteknar voru handa öllum Ísraelsmönnum og útlendingum þeim, er meðal þeirra dvöldust, að þangað mætti flýja hver sá maður, sem óviljandi hefði orðið manni að bana, svo að hann þyrfti ekki að deyja fyrir hendi hefnandans, þar til er hann hefði staðið fyrir máli sínu frammi fyrir söfnuðinum.