<< Jobsbók 7 >> Job 7 Icelandic | |
1 Er ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta og dagar hans sem dagar daglaunamanns?
2 Eins og þræll, sem þráir forsælu, og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu,
3 svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir og kvalanætur orðið hlutskipti mitt.
4 Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég: ,,Nær mun ég rísa á fætur?`` Og kveldið er langt, og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir.
5 Líkami minn er þakinn ormum og moldarskánum, húð mín skorpnar og rifnar upp aftur.
6 Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan, og þeir hverfa án vonar.
7 Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur! Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta.
8 Það auga, sem nú sér mig, mun eigi líta mig framar, augu þín leita mín, en ég er horfinn.
9 Eins og skýið eyðist og hverfur, svo kemur og sá eigi aftur, er niður stígur til Heljar.
10 Hann hverfur aldrei aftur til húss síns, og heimili hans þekkir hann eigi framar.
11 Ég ætla þá ekki heldur að hafa taum á tungu minni, ég ætla að tala í hugarangist minni, ég ætla að kveina í sálarkvöl minni.
12 Er ég haf eða sjóskrímsl, svo að þú þurfir að setja vörð yfir mig?
13 Þegar ég hugsa með sjálfum mér: ,,Rúmið mitt skal hugga mig, hvílan mín létta mér hörmung mína``
14 þá hræðir þú mig með draumum og skelfir mig með sýnum,
15 svo að ég kýs heldur að kafna, heldur að deyja en að vera slík beinagrind.
16 Ég er leiður á þessu _ ekki lifi ég eilíflega _, slepptu mér, því að dagar mínir eru andartak.
17 Hvað er maðurinn, að þú metir hann svo mikils og að þú snúir huga þínum til hans?
18 að þú heimsækir hann á hverjum morgni og reynir hann á hverri stundu?
19 Hvenær ætlar þú loks að líta af mér, loks að sleppa mér, meðan ég renni niður munnvatninu?
20 Hafi ég syndgað _ hvað get ég gert þér, þú vörður manna? Hvers vegna hefir þú mig þér að skotspæni, svo að ég er sjálfum mér byrði?
21 Og hví fyrirgefur þú mér eigi synd mína og nemur burt sekt mína? Því að nú leggst ég til hvíldar í moldu, og leitir þú mín, þá er ég eigi framar til.