Sakaría 3

<< Sakaría 3 >>
Zechariah 3 Icelandic
 

1 Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann. 2 En Drottinn mælti til Satans: ,,Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?`` 3 Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum. 4 Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: ,,Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!`` Síðan sagði hann við hann: ,,Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði.`` 5 Enn fremur sagði hann: ,,Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!`` Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá.

6 Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði: 7 ,,Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna.``

8 Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma. 9 Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa _ sjö augu á einum steini _ sjá, ég gref á hann letur hans _ segir Drottinn allsherjar _ og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands. 10 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.