Opinberun Jóhannesar 10

<< Opinberun Jóhannesar 10 >>
Revelation 10 Icelandic
 

1 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar. 2 Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni. 3 Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum. 4 Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: ,,Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki.`` 5 Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins 6 og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða, 7 en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.

8 Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: ,,Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni.`` 9 Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: ,,Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang.`` 10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum. 11 Þá segja þeir við mig: ,,Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga.``