<< Sálmarnir 147 >> Psalm 147 Icelandic | |
1 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.