Dómarabókin 12

<< Dómarabókin 12 >>
Judges 12 Icelandic
 

1 Efraímsmönnum var stefnt saman. Þeir héldu í norður og sögðu við Jefta: ,,Hví hefir þú farið að berjast við Ammóníta og eigi kvatt oss þér til fylgdar? Nú munum vér leggja eld í hús þitt yfir þér.`` 2 Þá sagði Jefta við þá: ,,Ég og þjóð mín áttum í miklum deilum við Ammóníta. Beiddist ég þá liðs hjá yður, en þér hjálpuðuð mér ekki úr höndum þeirra. 3 Og er ég sá, að þér ætluðuð ekki að hjálpa mér, þá lagði ég líf mitt í hættu og fór í móti Ammónítum, og Drottinn gaf þá í hendur mér. Hvers vegna komið þér þá í dag til mín til þess að berjast við mig?`` 4 Og Jefta safnaði saman öllum mönnum í Gíleað og barðist við Efraímíta, og unnu Gíleaðsmenn sigur á Efraímítum, því að Efraímítar höfðu sagt: ,,Þér eruð flóttamenn frá Efraím! Gíleað liggur mitt í Efraím, mitt í Manasse.`` 5 Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: ,,Leyf mér yfir um!`` þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: ,,Ert þú Efraímíti?`` Ef hann svaraði: ,,Nei!`` 6 þá sögðu þeir við hann: ,,Segðu ,Sjibbólet.``` Ef hann þá sagði: ,,Sibbólet,`` og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.

7 Jefta var dómari í Ísrael í sex ár. Síðan andaðist Jefta Gíleaðíti og var grafinn í einni af Gíleaðs borgum.

8 Eftir Jefta var Íbsan frá Betlehem dómari í Ísrael. 9 Hann átti þrjátíu sonu, og þrjátíu dætur gifti hann burt frá sér, og þrjátíu konur færði hann sonum sínum annars staðar að. Hann var dómari í Ísrael í sjö ár. 10 Síðan andaðist Íbsan og var grafinn í Betlehem.

11 Eftir hann var Elón Sebúloníti dómari í Ísrael. Hann var dómari í Ísrael í tíu ár. 12 Síðan andaðist Elón Sebúloníti og var grafinn í Ajalon í Sebúlon-landi.

13 Eftir hann var Abdón Híllelsson Píratóníti dómari í Ísrael. 14 Hann átti fjörutíu sonu og þrjátíu sonasonu, sem riðu sjötíu ösnufolum. Hann var dómari í Ísrael í átta ár. 15 Síðan andaðist Abdón Híllelsson Píratóníti og var grafinn í Píratón í Efraímlandi á Amalekítafjöllum.