Esekíel 42

<< Esekíel 42 >>
Ezekiel 42 Icelandic
 

1 Því næst fór hann með mig út í ytri forgarðinn, í norðurátt. Og hann leiddi mig að herberginu, sem er gegnt afgirta svæðinu og gegnt húsinu, sem liggur til norðurs. 2 Það var hundrað álnir á lengd og fimmtíu álnir á breidd. 3 Og gegnt dyrunum, sem lágu inn í innri forgarðinn, og gegnt steingólfi ytri forgarðsins, voru tvenn súlnagöng, hvor fyrir framan önnur, svo að salirnir voru þrír. 4 Og fyrir framan herbergin var tíu álna breiður gangur inn að innri forgarðinum, hundrað álna langur, og sneru dyr hans í norður. 5 En efstu herbergin voru styttri, því að súlnagöngin námu meira af þeim en af neðstu herbergjunum og miðherbergjunum. 6 Því að þau voru þrílyft og höfðu engar slíkar súlur sem þær, er voru í forgörðunum. Fyrir því voru efstu herbergin að sér dregin í hlutfalli við neðstu herbergin og miðherbergin. 7 Og múrinn, sem lá með endilöngum herbergjunum út að ytri forgarðinum, fyrir framan herbergin, var fimmtíu álna langur. 8 Því að herbergin, sem lágu út að ytri forgarðinum, voru fimmtíu álna löng. Og sjá, meðfram musterishúsinu voru hundrað álnir. 9 En neðan undir herbergjum þessum var inngangur að austanverðu, þegar gengið var inn í þau frá ytri forgarðinum.

10 Austanverðu við afgirta svæðið og bakhúsið voru og herbergi. 11 Og fyrir framan þau var vegur, og þau voru eins á að líta og herbergin, sem lágu norðan til, þau voru jafnlöng og jafnbreið, og allir útgangar þeirra voru með sömu gerð og á hinum og eins og hurðir þeirra. 12 Og líkt og dyrnar á herbergjunum, sem lágu sunnan til, svo voru á þeim einar dyr, þar sem vegurinn hófst, sá er liggur til austurs inn í ytri forgarðinn, en um þær voru menn vanir að ganga inn.

13 Og hann sagði við mig: ,,Norðurherbergin og suðurherbergin, sem liggja fyrir framan afgirta svæðið, það eru heilögu herbergin, þar sem prestarnir, er nálgast mega Drottin, eiga að eta hið háheilaga. Þar skulu þeir láta hið háheilaga og matfórnina, syndafórnina og sektarfórnina, því að staðurinn er heilagur. 14 Þegar prestarnir ganga þangað inn, _ en þeir skulu ekki ganga rakleiðis úr helgidóminum inn í ytri forgarðinn _, skulu þeir leggja þar af sér klæði sín, þau er þeir gegna þjónustu í, því að þau eru heilög. Þeir skulu fara í önnur föt og því næst ganga þangað, sem lýðurinn má vera.``

15 En er hann hafði mælt allt musterið að innanverðu, fór hann út með mig, í áttina til hliðsins, er veit til austurs, og mældi það að utan hringinn í kring. 16 Hann mældi austurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við 17 og mældi norðurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við 18 að suðurhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni. 19 Og hann sneri sér að vesturhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni. 20 Hann mældi það frá þeim fjórum hliðum: lengdin fimm hundruð álnir og breiddin fimm hundruð álnir. Allt umhverfis það var múrveggur til þess að skilja hið heilaga frá hinu óheilaga.